Kulnun og vanlíðan í starfi

Einkenni kulnunar

Kulnun lýsir sér í líkamlegri og eða starfstengdri örmögnun. Einkenni kulnunar geta verið streita, svefntruflanir, skert starfsorka, erfiðleikar með einbeitingu, minni starfsánægja, misnotkun áfengis eða lyfja, óútskýrð líkamleg einkenni eins og höfuðverkir eða meltingaróþægindi. Það geta jafnframt verið einkenni kulnunar ef starfsmaður upplifir stjórnleysi í starfi, finnist hlutverk sitt óskýrt, upplifi skort á stuðningi ásamt fleiri einkennum. Sérstakir áhættuþættir fyrir kulnun er einhæf vinna, skortur á tilgangi og lítil stjórn yfir vinnunni, skortur á jafnvægi milli vinnu og einkalífs.1

Mikilvægt er að huga að forvörnum áður en í óefni er komið. Einkenni kulnunar geta verið langvinn og hafa rannsóknir sýnt að þeir sem hafa fengið alvarlega kulnun nái ekki að snúa aftur til vinnu.2 Því er mikilvægt að grípa snemma til viðeigandi ráðstafana. Vinnustaðir geta lagt sitt af mörkum með því að bjóða upp á umhverfi sem styður við þessa þætti og gerir starfsmönnum kleift að breyta vinnufyrirkomulagi sínu til hins betra. Það væri gert með því að tryggja að stefna fyrirtækisins og hlutverk starfsmanna séu skýr, að upplýsingagjöf sé markviss og ábyrg, þannig að óþarfa óvissu sé eytt. Með því að hafa ráðgjöf aðgengilega starfsmönnum sem á þurfa að halda er hægt að fá mál upp á yfirborðið áður en í óefni er komið. 1

  1. Kulnun í starfi og sálfélagsleg vinnuvernd, Dr. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins

  2. Forvarnir það eina sem dugir. BSRB

  3. Ertu komin í þrot? Linda Bára Lýðsdóttir, sálfræðingur VIRK

Forvarnir